Sigurlín sýnir í Listagjánni

Sigurlín Grímsdóttir opnaði sýningu í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi í dag. Sýningin verður opin til 28. ágúst.

Sigurlín er fædd 1954 á Neðra-Apavatni í Grímsnesi, en býr nú á Votumýri I í Skeiða og Gnúpverjahreppi og rekur þar kúabú ásamt eiginmanni sínum. Á milli mjalta hefur hún þó gefið sér tíma til að sækja listnám.

Hún hefur stundað nám á hlutateikningu og fjarvídd við Lýðháskólann í Skálholti hjá Ásdísi Sigþórsdóttur. Á námskeiðum M.F.Á. hefur Sigurlín lært vatnslitamálun og olíumálun hjá Svövu Sigríði Gestsdóttur og Guðrúnu Svövu Svavarsdóttur og uppstillingar og meðferð blýs og lita hjá Katrínu Briem.

Sigurlín hefur sótt nám í módel og hlutateikningu hjá Elísabetu Harðardóttur og í Myndlistaskóla Reykjavíkur hjá Valgerði Bergsdóttur og vatnslitamálun hjá Gunnlaugi St. Gíslasyni.

Hún hefur tekið þátt í árlegum samsýningum myndlistafélags Árnessýslu og haldið fjölda einkasýninga.

Myndirnar vinnur hún í vatnslit og olíu, og hún sækir myndefni sitt í nánasta umhverfi sitt. Flestar myndir á þessari sýningu eru unnar á síðasta ári.

Fyrri greinUMFÍ vill stofna lýðháskóla á Laugarvatni
Næsta greinÞrjár hátíðir á Suðurlandi um helgina