„Gott ljóð lyftir manni upp úr því hversdagslega“

„Ég hef alltaf haft gaman af ljóðum og hef í gegnum tíðina sett saman svona eitt og eitt ljóð,“ segir Benedikt Jóhannsson frá Stóru-Sandvík.

Nýverið kom út önnur ljóðabók Benedikts er ber heitið Á leiðinni. Áður hafði hann sent frá sér ljóðabókina Á sléttunni.

„Gott ljóð lyftir manni upp úr því hversdagslega og varpar jafnvel nýju ljósi á lífið og tilveruna. Þegar ég varð sextugur ákvað ég að gefa út bókina Á sléttunni, með prósaljóðum um sveitalíf bernsku minnar,“ segir Benedikt sem er búsettur í Reykjavík og starfar sem sálfræðingur.

Benedikt segir að fyrsta ljóðabókin hans hafi fengið góðar viðtökur, meðal annars af gömlum sveitungum. „Það varð mér hvatning til að gera fleiri ljóð og því varð þessi nýja bók til.“

Að sögn Benedikts er nýja ljóðabókin allt öðruvísi en sú fyrri, bæði hvað varðar efni og form. „Nú nota ég bæði ljóðstafi og rím, þó sum ljóðin séu í frjálslegu formi. Bókin er 72 blaðsíður með hörðum kili. Kápuna prýðir falleg mynd eftir konu mína Láru H. Halldórsdóttur. Myndin er af kríum, en þær eru jú mikið á leiðinni og vilja vera í birtu. Kannski er ég eins og krían? Að leita að hinu eilífa ljósi,“ segir Benedikt.

Tíndi það besta upp úr skúffunni
„Ég tíndi það besta upp úr skúffunni frá síðustu 40 árum eða svo, en flest ljóðanna eru frá síðustu 5 árum, eða eftir að fyrri bókin kom út. Síðasta árið hef ég svo margsinnis farið yfir handritið, hent ljóðum út og sett önnur inn í staðinn. Ég vil hafa þetta vandað í von um að ljóðin höfði til fólks,“ segir Benedikt.

Að sögn Benedikts eru ljóðin almenns eðlis, um lífið og tilveruna. „Mörg þeirra fela í sér lífsspeki og leit að því sem gefur lífinu gildi, gjarnan í bland við glettni. Þegar mér tekst best upp má kalla ljóðin gáskafulla vegvísa á lífsleiðinni.“

Aðspurður hvernig tilfinning það sé að gefa út ljóðabók segir Benedikt það kalla fram blöndu af mörgum tilfinningum. „Eftirvæntingu, óöryggi og viðkvæmni. Þó finn ég fyrst og fremst gleði yfir því að koma ljóðunum frá mér, einkum þegar ég finn að þau ná til annarra og gefa þeim vonandi eitthvað. Óöryggið tengist því meðal annars að með því að gefa út svona bók er ég kominn nokkuð langt frá uppruna mínum, en ég er alin upp með harðduglegu fólki í Stóru–Sandvík, sem lét ekki eftir sér þá viðkvæmni sem gjarnan felst í ljóðum,“ segir Benedikt.

„Vonandi þykir hún eiguleg og tilvalin til að lyfta huganum nú þegar við göngum inn í vorið og sumarið,“ segir Benedikt að lokum.

Á leiðinni fæst í öllum betri bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu og einnig í Bókakaffinu á Selfossi.

Vísi

Ég held ekki
það heiminn skeki
þótt orð ég fangi
sem eru á reiki
og þerruð blöð
með þönkum þeki.

– Það er bara spekileki.

Fyrri greinSnæfríður Sól náði EM-lágmarki
Næsta greinNý stjórn Mílunnar – Birgir orðinn forseti