Sjóðurinn góði fær miða á Hátíð í bæ

Séra Guðbjörg Arnardóttir á Selfossi tók á dögunum við nokkrum tugum aðgöngumiða á jólatónleikana Hátíð í bæ sem fram fara í Iðu á Selfossi þann 9. desember næstkomandi.

Miðarnir eru ætlaðir skjólstæðingum Sjóðsins góða sem er samvinnuverkefni Hjálparstofnunar kirkjunnar og Rauða krossins og er þetta í fimmta sinn sem Hátíð í bæ gefur slíka miða fyrir jólin.

Næstu tónleikar eru þeir níundu í röðinni sem Kjartan Björnsson, rakari á Selfossi, stendur að. Að venju verður mikið um dýrðir en meðal þeirra sem koma fram eru Karítas Harpa Davíðsdóttir, Karlakór Selfoss, Hera Björk Þórhallsdóttir, Labbi og Barnakór Hvolsskóla.

Miðasala á tónleikana fer fram á rakarastofunni hjá Kjartani í Miðgarði og á miði.is.

Fyrri greinNýtt ungmennafélag í Flóahreppi
Næsta greinSilungakvintett á tónleikum í Þorlákshöfn