Hamingjan og Úlfurinn á Suðurlandi

Jónas Sigurðsson tónlistarmaður, oft kenndur við Ritvélar framtíðarinnar og Héðinn Unnsteinsson höfundur bókarinnar “Vertu Úlfur” munu á næstu vikum ferðast um landið með dagskrá sem þeir kalla “Hamingjan og Úlfurinn”.

Dagskráin er að hluta til tónlist og að hluta til töluð orð. Viðfangsefnið er lífið sjálft. “Hvað er hamingjan? Hvað skiptir máli í því stutta ferðalagi sem lífið er? Héðinn fjallar í uppistandsformi um lífsreynslu sína, oflæti og hamskipti og leggur út af Lífsorðunum 14, einföldum kennisetningum sem hjálpa honum á degi hverjum. Jónas leikur nokkur af lögum sínum og ræðir jafnframt um það hvað liggur að baki þeirra.

“Við lítum á dagskrána sem samtal við áheyrendur og undir lokin viljum við heyra frá þeim líka,” segja þeir félagarnir.

Frumsýning á Hamingjunni og Úlfinum verður í Listasafni Árnessýslu 19. ágúst og síðan verða þeir Héðinn og Jónas í Tryggvaskála Selfossi 20.ágúst og Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn 21.ágúst. Eftir helgi verða félagarnir í Hvoli 24. ágúst og á Háaloftinu Vestmanneyjum 26.ágúst.

Forsala aðgöngumiða á Hamingjuna og Úlfinn er á tix.is

Fyrri greinSkjálftar gætu fundist í byggð
Næsta grein„Vonum að við séum Selfyssingum til sóma“