Lífræni dagurinn á Sólheimum

Það verður mikið um að vera laugardaginn 15. ágúst á Sólheimum þegar haldið verður upp á Lífræna daginn á Menningarveislu Sólheima.

Þetta er í tíunda sinn sem þessi hátíð er haldin og því verður slegið upp markaðstjaldi við verslunina Völu þar sem góður afsláttur verður á framleiðslu Sólheima. Má þar nefna lífrænt kaffi og te sem og allt það ferskasta úr lífrænu ræktuninni svo sem nýuppteknar kartöflur, tómata, agúrkur, grænkál, paprikur, chilli pipar, kryddjurtir og margt fleira. Nýbökuð brauð og kökur úr bakaríinu. Tré, runnar og blóm úr Ölri og kynning verður á snyrtivörunum sem framleiddar eru í Jurtastofu.

Tvennir tónleikar verða um daginn. Kl. 14.00 verða þær Magnea Tómasdóttir og Inga Björk Ingadóttir með tónleika í Sólheimakirkju og kl. 16.00 heldur trúbadorinn Nikolaus Kattner uppi stemmingu við kaffihúsið Grænu könnuna. Í tilefni dagsins verða Sólheimakjötsúpan og nýjar kökur á góðu verði í Grænu könnunni.

Það verður nóg um að vera fyrir börnin. Skátar verða með útileiki og spil á sama tíma og Háskólalestin heimsækir Sólheima. Háskólalestin ferðast um landið með lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og býður einnig upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Einnig verða hestar á staðnum milli kl. 15.00 og 17.00 og verður teymt undir þeim sem fara á bak.

Skátafélag Sólheima verður með mikla dagskrá þegar nýja skátaheimilið Skakki skóli verður vígt. Kveiktur verður varðeldur og allir geta fengið að smakka lífrænt grænmetiströllaseyði af hlóðum Tröllagarðs og hægt verður að baka brauð á priki. Forsprakkar skátafélagsins Gummi Páls og Gaui litli segja sögur, gítarinn verður dreginn fram og skátasöngvarnir sungnir við varðeldinn.

Eins og í allt sumar þá verður sýningin um gönguferð Reynis Péturs fyrir 30 árum opin í íþróttaleikhúsinu, einnig verður samsýning vinnustofa opin í Ingustofu og sýning um sjálfbært heimili í Sesseljuhúsi.

Fyrri greinÁrborg tapaði í toppslagnum – KFR lá í Sandgerði
Næsta greinAðeins einn fór til Ástralíu!