Samtímalistin og samfélagið

Á morgun, laugardaginn 23. maí kl. 13-14:30 verða pallborðsumræður í Listasafni Árnesinga í Hveragerði um samtímalistina og samfélagið.

Í pallborði verða Árni Blandon kennari við FSu, Ólöf K. Sigurðardóttir listfræðingur og Sirra Sigrún Sigurðardóttir myndlistarmaður.

Vænst er þátttöku gesta í þessari dagskrá sem ætlað er að gera samtímalist aðgengilegri og velta upp áhugaverðum sjónarhornum. Því eru allar spurningar og vangaveltur gesta vel þegnar. Reynt verður að greina hvernig listin sprettur úr samtímanum og umhverfinu ásamt því að ræða hana í stærra samhengi og útgangspunktur umræðnanna er sýningin GEYMAR – Sirra Sigrún Sigurðardóttir, sem opnuð var um síðustu helgi.

Í pallborði ásamt Sirru verður Árni Blandon sem var einn kennara Sirru við FSU á Selfossi, en þar kennir hann m.a. listir og menningu. Árni á líka feril bæði í tónlist og leiklist og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum með áherslu á framúrstefnuleikhús, sálfræðilegar bókmenntir og bókmenntakenningar í samtíma bókmenntum. Ólöf K. Sigurðardóttir listfræðingur, núverandi safnstjóri Hafnarborgar og næsti safnstjóri Listasafns Reykjavíkur verður einnig í pallborði. Ólöf lagði grunn að safnfræðsludeild Listasafns Reykjavíkur, stærsta samtímalistasafni landsins, þegar hún vann þar fyrr á árum og hún hefur líka starfað með Sirru og verið sýningarstjóri sýningar á verkum hennar.

Sirra er fædd og uppalin á Selfossi, en lauk myndlistarnámi frá Listaháskóla Íslands og framhaldsnámi frá listaháskóla í New York. Hún vefur vakið verðskuldaða athygli fyrir myndlist sína, sýnt víða og var m.a. fyrir tveimur árum valin á lista listtímarits, sem tilgreindi 24 alþjóðlega myndlistarmenn sem vert væri að fylgjast með.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18 og er aðgangur ókeypis, líka á umræðudagskrána.

Fyrri greinAfhentu ríkissáttasemjara bók um letina
Næsta greinGuðsteinsgangan gekk frábærlega