Nála í Sögusetrinu á Hvolsvelli

Opnuð hefur verið í Gallerí Ormi í Sögusetrinu á Hvolsvelli margmiðlunarsýningin Nála eftir Evu Þengilsdóttur. Sýningin er byggð á samnefndri bók Evu og var sett upp í Þjóðminjasafninu sl. haust.

Opnunargestir voru á annað hundrað börn úr Hvolsskóla og Leikskólanum Örk á Hvolsvelli, en sýningin er einkun ætluð börnum – á öllum aldri.

Sýningargestir taka virkan þátt í sýningunni og breyta henni, en sýningargripirnir hafa þá sérstöðu að ætlast er til að þeir séu snertir og unnið með þá og sýningin taki þannig stöðugum breytingum og verði á endanum sameiginlegt sköpunarverk allra sem að henni koma.

Ratleikur hefur verið settur upp í húsinu í tengslum við sýninguna og nýr 90 metra langur „Nálu-refill“ úr rúðustrikuðum pappír sem gestir teikna og lita að vild. Er það vitaskuld vísun í Njálu-refilinn mikla sem nú er verið að sauma í húsinu og verður á endanum 90 metrar.

Sýningin er opin á afgreiðslutíma Sögusetursins og stendur út júnímánuð. Aðgangur er ókeypis.

Frá 15. maí er Sögusetrið opið alla daga kl. 9:00 – 18:00. Til 15. maí er setrið opið laugardaga og sunnudaga kl. 10:00 – 17:00 og virka daga skv. samkomulagi.

Fyrri greinHéraðsdómur Suðurlands stofnun ársins
Næsta greinAri valinn leikmaður ársins