Fjölskyldusmiðja á skírdag

Á skírdag verður vorinu fagnað með fjölskyldusmiðju og leiðsögn í Listasafni Árnesinga kl. 12:00 til 16:00.

Í listasmiðjunni verður unnið út frá inntaki sýningarinnar ÁKALLs og óskum þátttakenda framtíðinni til heilla. Sérstök áhersla er lögð á að tengja verkin sem sköpuð verða við menningu, gildi, sjálfsmynd og umhverfisvitund. Notuð verða ýmiskonar náttúruleg efni sem og fjölbreytt fundin efni sem hægt er að nýta á skapandi hátt.

Í listasmiðjunni fá þátttakendur að kynnast ýmiskonar listmunum sem frumbyggjar víðsvegar úr heiminum hafa notað til að leggja áherslu á náttúruvernd og þau líka skoðuð í samhengi við íslenska fornmuni. Fjallað verður um ólík tákn og hvernig við getum lært af hvort af öðru. Vinnusmiðjan veitir þátttakendum tækifæri til að virkja eign hugmyndir í listsköpun á sama tíma og rætt verður um inntak sýningarinnar ÁKALLs. Leiðsögnin og listasmiðjan er í umsjá Ásthildar Jónsdóttur sýningarstjóra.

Um páskana er opið í Listasafni Árnesinga eins og venjulega fimmtudaga til sunnudaga og því lokað á annan í páskum sem er mánudagur. Á safnið eru allir velkomnir sér að kostnaðarlausu og á það einnig við listasmiðjuna.

Fyrri greinEyrbekkingar mótmæla á Selfossi
Næsta greinVélsleðaslys við Klukkutinda