Ný sýning undir stiganum

Síðastliðinn fimmtudag opnaði Halldóra Kristín Pétursdóttir myndlistarsýningu í Gallerí undir stiganum, sýningarrými Bæjarbókasafns Ölfuss í Þorlákshöfn.

Halldóra er fædd á Selfossi árið 1975 og bjó fyrstu ár ævi sinnar í Þorlákshöfn. Hún flutti síðan til Hafnarfjarðar en dvaldi alltaf í öllum fríum sínum hjá skyldfólki sínu í Þorlákshöfn eða í Fljótshlíðinni þannig að hún hefur mjög sterkar taugar til Þorlákshafnar og Suðurlands.

Halldóra hefur stundað nám í myndlist, litablöndun, listasögu og hönnun bæði í Bandaríkjunum og í Róm á Ítalíu og haldið bæði einka og samsýningar víða. Verk hennar prýða mörg heimili og stofnanir víða um heim. Í verkum sínum hefur Halldóra reynt að gera íslenskri náttúru skil, enda koma hugmyndir að verkunum oftast þegar hún ferðast um íslenska nátturu og nýtur fegurðar hennar og kyrrðar.

Halldóra, sem dvaldi mikið í Þorlákshöfn sem barn og unglingur, heimsækir bæinn reglulega og þegar hún var að vinna að þessari sýningu, þá gekk hún um bæinn og tók myndir sem hún notaði til að blanda liti, mála og koma sýningunni saman.

Á sýningunni eru ný olíumálverk og vatnslitamyndir sem allar eru unnar síðastliðið sumar eftir ferðalög um Þorlákshöfn. Litirnir í verkunum eru bæði nýjar og gamlar minningar um Höfnina, fjöruna og himininn eða eins og Halldóra Kristín segir „þegar ég kem í Höfnina þá er ég á vissan hátt komin HEIM, hvergi annars staðar finn ég þessa RÓ og vona ég að sýningin gefi ykkur smá tilfinningu fyrir upplifun minni af því að vera komin í HÖFN. HEIMA HÖFN.“

Fyrri greinFremsta taekwondofólk Norðurlandanna á Selfossi
Næsta greinRætt um hvort heimanám sé of mikið eða of lítið