Bragi og Bergþór í Strandarkirkju

Strandarkirkja í Selvogi mun óma af fagurri tónlist á laugardögum í júlímánuði en þar er haldin tónlistarhátíðin „Englar og menn“.

Markmið hátíðarinnar er að bjóða upp á lifandi og vandaða tónlistarviðburði á hinum sögufræga stað og auðga um leið tónlistarlíf á Suðurlandi.

Laugardaginn 19. júlí kl. 14:00 gleðja feðgarnir Bragi Bergþórsson tenór og Bergþór Pálsson baritón tónleikagesti með söng sínum undir yfirskriftinni „Blásið þið, vindar!“ þar sem meðal annars munu hljóma sönglög Inga T. Lárussonar.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Strandarkirkjunefnd.Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.500 kr. Ekki er tekið við greiðslukortum.

Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni. Í Selvogi var fyrr á öldum blómleg byggð með útgerð og landbúnaði en nú er þar orðið strjálbýlt. Fjölmargir ferðamenn heimsækja Selvoginn og þar má njóta útivistar á fallegum gönguleiðum. Með tilkomu nýja Suðurstrandarvegarins hafa samgöngur stórbatnað og ferðamöguleikar orðið fjölbreyttari.

Að tónleikum loknum er svo upplagt að fá sér hressingu hjá heimamönnum í kaffihúsinu T-bæ eða í Pylsuvagninum.

Fyrri greinMiðjumark Inga Rafns dugði til sigurs
Næsta greinFramkvæmdir í Þingborg ganga vel