Voces Thules í Skálholti

Voces Thules hefur þriðju viku Sumartónleika í Skálholti með tónleikum í kvöld, fimmtudaginn 17. júlí kl. 20.

Á tónleikunum verður sungið á 12. og 13. aldar íslensku og latínu.

Í tilefni af upphafi Skálholtshátíðar verður m.a. prósan Innocentem te servavit sungin til heiðurs Þorláki Þórhallssyni biskupi í Skálholti á 12. öld. Að þessu sinni verður þessi þekktasti söngur úr Þorlákstíðum í organum (fjölradda) útfærslu.

Þó helgisöngvar miðalda varðveitist oftast í einradda uppskrift er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið „dúplað” eða „triplað” á staðnum þegar söngprestar komust í góða stemningu.

Spuni verður ríkjandi á tónleikunum, en hann var jafn eðlilegur hluti af tónlistariðkun á miðöldum og nú, þó svo að kirkjufeður gerðu annað slagið tilraun til að koma í veg fyrir hann.

Fyrri greinLaxveiðin ennþá dræm
Næsta greinVerslanir týna tölunni á Selfossi