Valgeir og Ásta bjóða börnum heim um páskana

Þau Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, sem eru nýflutt í gamla kaupfélagshúsið á Eyrarbakka, hyggjast bjóða upp á fjölskylduvæna dagskrá um páskana undir formerkunum „Tónlist og náttúra“ og heitinu „Fuglakantata“.

Valgeir hefur að undanförnu verið að semja tónlist um fugla við texta Jóhannesar úr Kötlum.

„Við viljum með þessu halda áfram að brosvæða gesti okkar,“ segja hjónin um uppákomuna. „Við teljum vart hægt að finna betri stað en Eyrarbakka fyrir samveru og andakt þar sem Valgeir spinnur dagskrárvef úr eigin fuglatónlist og útfrá textunum hans Jóhannesar, sem bjó í Hveragerði um skeið,“ segir Ásta.

Valgeir segir dagskrána höfða til barna frá tveggja ára og eldri. Hann flytur lög sín af Fuglakantötu, nýgerðum hljómdiski sem hann vann með Hjallastefnunni og mun ræða um líf þessara fugla og háttarlag fyrir og á meðan á söng stendur og varpar myndum af þeim jafnt í hugskot sem á vegg. Lagt er upp úr því að virkja börnin til þátttöku í söngnum og skýra og túlka orð og texta sem kunna að vera unga fólkinu framandi.

„Væntingar fólks til páskahelgarinnar eru oftast miklar, sumir þeysa út á land í bústað, aðrir út í lönd í flugvél, enn aðrir koma svo í andaktina til okkar á Eyrarbakka ýmist frá Reykjanesi með Suðurstrandaveginum eða af höfuðborgarsvæðinu í gegnum Þrengslin og enn aðrir koma svo frá hinu frjósama Suðurlandi,“ segir Valgeir.

Dagskráin fer fram í Bakkastofu, að Eyrargötu 32 á Eyrarbakka, kl. 14 á skírdag, föstudaginn langa, laugardag fyrir páska, páskadag og á annan í páskum. Boðið er upp á fjölskylduafslátt á aðgangseyri.

Fyrri greinGarðar leiðir frjálsa með Framsókn
Næsta greinKolbeinn íþróttamaður Gnúpverja 2013