Þórsþing á sunnudaginn

Þórsþing, sagnaþing til heiðurs Þór Vigfússyni fyrrum skólameistara, verður haldið sunnudaginn 6. apríl frá kl. 14 til 17 í húsakynnum Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Húsið opnar gestum kl. 13 og í hinum ýmsu stofum skólans verður brugðið upp á skjá erindum og ræðuköflum sem Þór hefur haldið í gegnum tíðina.

Þingið hefst formlega kl. 14 með því að hringt verður hinni gömlu skólabjöllu Iðnskólans. Helstu atriði sagnaþingsins verða:

Drengurinn Þór – Jón Özur Snorrason stýrir.

Þór í Þýskalandi – Tryggvi Sigurbjörnsson segir frá Þýskalandsárunum.

Ohne hinzusehen – Hannes Stefánsson rifjar upp sögur frá Laugarvatni.

Mósaík – nemendur úr MT og MS flytja minningabrot.

Kaffihlé

Meistari vor – Hjörtur Þórarinsson og Gísli Skúlason draga upp myndbrot úr sögu skólans.

Listin að stjórna með pí – Sölvi Sveinsson fyrrum skólameistari flytur.

Þór með hamarinn – Sigurður G. Tómasson stýrir.

Þórssport – Sigmundur Stefánsson stýrir.

Afi og stóra bókin – Þórhildur Kristjánsdóttir segir sögur.

Af sagnamanni og Akademíu – Bjarni Harðarson og fleiri koma fram.

Kristjana Skúladóttir syngur þýsk revíulög og fyrrum kórfélagar Fjölbrautaskólans koma fram undir stjórn Jóns Inga Sigurmundssonar. Systkinin Guðrún Sigríður og Snorri Sigfús Birgisbörn flytja þjóðlag. Eftir þingið geta gestir pantað kjötsúpu og rjómapönnukökur í anda Þórs á veitingastaðnum í Tryggvaskála á Selfossi.

Strætisvagnar keyra frítt þennan dag frá Mjódd í Reykjavík og um Suðurland í tilefni kynningarátaksins „Leyndardómar Suðurlands” sem stendur frá 26. mars til 6. apríl.

Þór Vigfússon var fæddur á Selfossi árið 1936 og lauk stúdentsprófi frá nýstofnuðum menntaskóla á Laugarvatni. Hann var í senn mikill námsmaður og íþróttagarpur. Þór fór til framhaldsnáms í Berlin á kaldastríðsárunum og kenndi síðan þýsku fyrst á Laugarvatni, og síðan í Menntaskólunum við Tjörnina, síðar Sund þar sem hann var starfaði einnig sem konrektor. Þór var skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 1983-94 og kennari til ársins 1998. Hann var annálaður kennari en á efri árum gerðist hann sagnamaður í sínu héraði og miðlaði mörgum af fróðleik sínum. Hann andaðist í maí sl.

Fyrri greinSandvíkurtjaldurinn lentur
Næsta greinSmári nýr formaður félagsins