Svakalegar lokamínútur í Hveragerði

Hamar vann frábæran sigur á Grindavík í kvöld í Iceland Express-deild karla. Lokatölur voru 78-76.

Hamarsmenn mættu hreinlega ekki til leiks fyrr en í síðari hálfleik. Gestirnir réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik og leiddu 25-42 í leikhléinu.

Það var allt annað Hamarslið sem mætti á gólfið eftir hlé. Þriðji leikhluti hófst með látum þar sem Hamar skoraði 35 stig og komst yfir, 60-58. Dramatíkin var mikil undir lokin en í 4. leikhluta hafði Grindavík 6 stiga forystu þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Hamar skoraði tólf stig gegn fjórum á lokamínútunum.

Nerijus Taraskus kom Hamri í 75-73 þegar mínúta var eftir en Páll Axel Vilbergsson svaraði með þriggja stiga körfu fyrir Grindavík. Darri Hilmarsson jafnaði fyrir Hamar þegar 24 sekúndur voru eftir, 76-76. Grindavík missti boltann útaf í næstu sókn og allt ætlaði svo um koll að keyra í íþróttahúsinu í Hveragerði þegar Andre Dabeny lagði boltann í körfuna og tryggði Hamri sigurinn með tvær sekúndur eftir á klukkunni.

Dabney skoraði 27 stig fyrir Hamar, Ellert Arnarson var með 14 og Darri Hilmarsson 13. Taraskus skoraði 8 stig og Svavar Páll Pálsson 7 auk þess að taka 11 fráköst.

Hamar er nú í 5. sæti deildarinnar með 10 stig og leikur næst gegn ÍR á mánudaginn eftir viku.

Fyrri greinAllir með endurskinsmerki
Næsta greinEinar Jónsson þjálfar Árborg