Fjögur HSK met á bætingamótum

Umf. Selfoss hélt svokölluð bætingamót í frjálsum íþróttum dagana 28. og 29. ágúst síðastliðinn. Mótin stóðu undir nafni en fjölmargir bættu sinn árangur og fjögur HSK met voru sett á mótunum.

Þórhildur Arnardóttir, Hrunamönnum, setti HSK met í 300 metra hlaupi 12 ára, en hún hljóp á 48,99 sek. og bætti 24 ára gamalt met Lindu Ósk Heimisdóttur um 6 sek. Þess má geta að Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, Umf. Selfoss, hljóp einnig undir gamla HSK metinu í hlaupinu, en hún hljóp á 53,75 sek. Þórhildur setti einnig HSK met í 60 m grindahlaupi í sínum aldursflokki, hljóp á 11,52 sek. Solveig Þóra Þorsteinsdóttir átti metið sem var 11,79 sek.

Tvö HSK met voru sett í 300 metra hlaupi í drengjaflokkum. Kári Leó Kristjánsson, Umf. Selfoss, setti met í 11 ára flokki, hljóp á 61,82 sek og bætti þar með rúmlega þriggja mánaða gamalt met Eyþórs Birnis Stefánssonar um 7,44 sek. Þá bætti Tómas Þorsteinsson, Umf. Selfoss, eigið met í 300 m í 13 ára flokki um rúmar þrjár sek., hljóp á 45,73 sek.

Loks bætti Álfrún Diljá Kristínardóttir, Umf. Selfoss, ársgamalt HSK met í sleggjukasti í 12 ára flokki, sem hún átti sjálf. Álfrún kastaði 2 kg sleggjunni 28,70 metra sem var bæting hjá henni um tæpa átta metra.

Fyrri greinLeikfélag Selfoss æfir fjölskyldusýningu
Næsta greinTekjur hafnarinnar af ferjuflutningum langt umfram væntingar