„Ætluðum að skemma partíið“

Selfoss tapaði 3-1 gegn Breiðabliki í Pepsideild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Breiðablik tryggði sér um leið Íslandsmeistaratitilinn 2018.

„Við settum þennan leik upp eins og aðra, við ætluðum að mæta hér og skemma partíið. Það gekk ekki alveg upp. Við settum okkur markmið fyrir sumarið um ákveðinn stigafjölda og við eigum eftir að ná því. Við gerum það í næsta leik, það er ekkert annað sem kemur til greina,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Leikurinn var jafn í upphafi en Blikar fengu stórhættulegt færi strax á 4. mínútu. Selfyssingar hristu fljótlega úr sér hrollinn og áttu fínar sóknir áður en Grace Rapp skoraði stórglæsilegt mark á 23. mínútu eftir sendingu frá Magdalenu Reimus.

Blikar sóttu stíft í kjölfarið en Selfoss náði að halda hreinu fram að leikhléi og staðan var 0-1 í hálfleik.

Breiðablik hóf seinni hálfleikinn af krafti og skoraði tvö mörk með tveggja mínútna millibili á upphafsmínútunum. Eftir það róaðist leikurinn nokkuð en Blikar voru áfram við stjórnvölinn og sóttu meira. Selfyssingar komust þó nálægt því að jafna þegar Unnur Dóra Bergsdóttir setti boltann í þverslána á 69. mínútu.

Þremur mínútum síðar skoruðu Blikar þriðja markið og eftir það fjaraði leikurinn smátt og smátt út.

Selfoss hefur áfram 17 stig í 6. sæti en Breiðablik er og verður á toppnum með 46 stig. Selfoss mætir ÍBV í lokaumferðinni á Selfossvelli á laugardaginn.

Fyrri grein„Óþreytandi í boðskap sínum, fræðslu og hvatningu“
Næsta greinÖruggur sigur á Akureyri