Góður sigur í fyrstu umferð Olísdeildarinnar

Einar Sverrisson skoraði átta mörk í leiknum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar unnu góðan sigur á ÍR á útivelli þegar þeir hófu leik í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 24-30.

ÍR byrjaði betur í leiknum og leiddi 7-4 eftir tólf mínútna leik. Þá skoruðu Selfyssingar sex mörk í röð og komust yfir, en staðan var 11-13 í leikhléi.

Selfoss náði þriggja marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks og hélt öruggu forskoti í kjölfarið. Þegar leið að lokum áttu Selfyssingar nóg eftir á tanknum og bættu í, þannig að sex mörk skildu liðin að þegar flautað var til leiksloka.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 9/1 mörk, Árni Steinn Steinþórsson skoraði 6 mörk og sendi 7 stoðsendingar, Alexander Egan skoraði 5, Elvar Örn Jónsson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Hergeir Grímsson 2 og Pawel Kiepulski 1.

Haukur sá rautt
Haukur Þrastarson var með flest brotin fríköst í vörninni, sjö talsins en hann komst ekki á blað í sókninni og skaut aðeins einu sinni að marki. Haukur fékk rautt spjald í upphafi seinni hálfleiks en Selfyssingar þjöppuðu sér saman og efldust nokkuð í kjölfarið. Annars léku Selfyssingar heilt yfir góðan varnarleik og Einar og Alexander létu báðir til sín taka með 6 brotin fríköst.

Kiepulski varði 9 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson kom inn á lokakaflanum og stóð sig vel með 5 varin skot.

Næsti leikur Selfyssinga er gegn Akureyri á útivelli á mánudag en fyrsti heimaleikurinn er ekki fyrr en 24. september þegar Afturelding kemur í heimsókn í Iðu.

Fyrri greinFyrstu leiguíbúðir SS komnar í notkun
Næsta greinRefaskyttan beint í fyrsta sæti