Sindri Freyr sjöfaldur Íslandsmeistari

Lið HSK/Selfoss náði frábærum árangri á MÍ 15-22 ára sem haldið var á Laugardalsvelli í blíðskaparveðri síðustu helgina í ágúst. Liðið endaði í öðru sæti í heildarstigakeppni mótsins eftir æsispennandi baráttu við lið ÍR.

HSK/Selfoss sigraði í tveimur flokkum, 15 ára stúlkna og 15 ára pilta.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson náði þeim glæsilega árangri að verða sjöfaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára auk þess að setja HSK met í sínum aldursflokki bæði í langstökki, þar sem hann stökk 6,27 m og í 200 m hlaupi, sem hann hljóp á 23,95 sek. Sindri sigraði einnig í 100 m hlaupi, 100 m grindahlaupi, 300 m grindahlaupi og þrístökki auk þess sem hann var í boðhlaupssveit HSK í 4×100 m boðhlaupi ásamt þeim Unnsteini Reynissyni, Hjalta Snæ Helgasyni og Elíasi Erni Jónssyni.

Dagur Fannar Einarsson varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 16-17 ára. Hann sigraði í 400 m grindahlaupi og setti svo HSK met í 110 m grindahlaupi, 15,82 sek og og í 200m hlaupi þar sem hann hljóp á 23,53 sek.
Boðhlaupsveit drengja setti HSK met í 4×400 m hlaupi í þremur flokkum en drengirnir hlupu á 3:47,24 mín. Þetta er HSK met í 16–17 flokki, 18–19 ára flokki og 20–22 ára flokki. Í sveitinni voru Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Unnsteinn Reynisson, Jónas Grétarsson og Dagur Fannar Einarsson.

Eva María Baldursdóttir varð þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára, en hún sigraði í hástökki, þrístökki og var í sveit HSK í 100 m boðhlaupi með Emilíu Sól Guðmundsdóttur Öfjörð, Birtu Sigurborgu Úlfarsdóttur og Jónu Kolbrúnu Helgadóttur.

Hjalti Snær Helgason varð einnig þrefaldur Íslandsmeistari í 15 ára flokki, hann sigraði í spjótkasti og kringlukasti og var sem fyrr segir í boðhlaupssveitinni í 4×100 m hlaupi.

Hildur Helga Einarsdóttir, Ýmir Atlason og Róbert Korchai urðu öll tvöfaldir Íslandsmeistarar og fyrir utan þessa upptalningu unnu keppendur frá HSK/Selfoss 21 silfur og 16 brons og mikill fjöldi góðra bætinga leit dagsins ljós hjá einstökum keppendum.

Fyrri greinBranger sigraði á nýju brautarmeti
Næsta greinUpprennandi rithöfundar í ML