Branger sigraði á nýju brautarmeti

Benoit Branger frá Frakklandi sigraði á nýju brautarmeti í Hengill Ultra Trail 100 kílómetra hlaupinu sem haldið var í Hveragerði um helgina.

Branger fór kílómetrana 100 á 14:20,24 klukkustundum. Bretinn Matt O’Keefe varð annar á 14:50,15 klst og Birgir Már Vigfússon þriðji á 15:25,43 klst.

Algjör metskráning var í utanvegahlaupið sem haldið er núna í sjöunda skiptið í Hveragerði en keppendur voru 372 talsins. Fyrir utan metfjölda þátttakenda þá eru keppendur frá 17 þjóðlöndum í fjórum heimsálfum skráðir til leiks.

Í 50 km hlaupi sigraði Ingvar Hjartarson á 4:55,35 klst og annar varð Daníel Reynisson á 5:19,02 klst. Fyrsta konan í mark var Rannveig Oddsdóttir á 5:56,35 klst og önnur varð Sofia Bardoll á 6:07,26 klst.

Langflestir keppendur voru í 25 km hlaupi, 150 talsins, en þar sigraði Arnar Pétursson á 1:55,52 klst og annar varð Bjarki Freyr Rúnarsson á 1:59,21 klst. Anna Berglind Pálmadóttir var fyrst í mark í kvennaflokki á 2:08,45 klst. og Vaka Njálsdóttir önnur á 2:10,30 klst.

Í 10 km hlaupi sigraði Sigurjón Ernir Sturluson á 48,45 mín og annar varð Þorleifur Þorleifsson á 50,33 mín. Í kvennaflokki sigraði Margrét Sól Torfadóttir á 57,12 mín og önnur varð Valgerður B. Eggertsdóttir á 1:05,13 klst.

Í 5 km hlaupi sigraði Sveinn Skúli Jónsson á 26,12 mín og annar varð Erik Newman á 32,13 mín. Kristín Ýr Gunnarsdóttir sigraði í kvennaflokki á 31,59 mín og önnur varð Svanborg Jónsdóttir á 33,18 mín.

Að sögn Einars Bárðarsonar, eiganda hlaupsins, gekk framkvæmd hlaupsins alveg frábærlega í alla staði og verður það haldið aftur að ári, 6.-7. september.

Fyrri grein„Eins og að hreinsa stærsta fjárhúsið“
Næsta greinSindri Freyr sjöfaldur Íslandsmeistari