„Héldum áfram og munum halda áfram“

Selfoss tapaði 2-1 fyrir Þór á Akureyri í dag í Inkasso-deild karla í knattspyrnu. Selfyssingar eru enn í fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir.

„Mér fannst þetta fínn leikur af okkar hálfu. Við gerðum mistök og þeir refsa okkur fyrir þau, flott mark sem við skorum. Það er ekki mikið jákvætt þegar þú tapar leik og fáum ekki stig en við gáfumst aldrei upp. Við héldum áfram og munum halda áfram,“ sagði Dean Martin, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net í leikslok.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og eftir álitlegar sóknir beggja liða náðu Þórsarar að komast yfir á 35. mínútu þegar Nacho Gil skoraði af stuttu færi eftir misskilning í vörn Selfoss. Þeir vínrauðu svöruðu þó strax fyrir sig og þremur mínútum síðar var Hrvoje Tokic búinn að koma knettinum í netið eftir sendingu frá Kenan Turudija.

Seinni hálfleikurinn var ívið rólegri, að minnsta kosti framan af. Þegar leið á leikinn áttu Þórsarar beittari sóknir og þeir náðu að skora sigurmarkið á 81. mínútu en þar var að verki varamaðurinn Jóhann Hannesson. Þórsarar voru nær því að bæta við þriðja markinu en Selfyssingar að jafna en mörkin urðu ekki fleiri.

Selfoss hefur 15 stig í næst neðsta sæti og á tvo leiki eftir. Þar fyrir ofan eru Njarðvík og ÍR með 18 stig. Selfoss mætir ÍA á heimavelli í næstu umferð og á svo útileik gegn Njarðvík í lokaumferðinni.

Fyrri greinSvipuð heildarvelta og á síðustu árum
Næsta greinHildur Helga bætti 19 ára gamalt met