„Þeir eru eins og saumavélar“

„Það er alltaf gaman að spila í Evrópukeppni, við einhver öðruvísi lið sem maður veit ekkert hvernig eru,“ sagði Einar Sverrisson, markahæsti leikmaður Selfoss í kvöld.

Selfoss vann síst of stóran sigur á Klaipedas Dragunas frá Litháen í fyrri leik liðanna í EHF-bikar karla í handbolta í Iðu í kvöld. Lokatölur urðu 34-28 og Einar segir að Litháarnir hafi komið sér á óvart.

„Þeir eru eins og saumavélar, þeir bara tröllast áfram á manni þó að maður sé kominn með þá. Þetta eru þvílíkir skrokkar og það er gaman að takast á við þá.“

Selfoss náði mest níu marka forskoti þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum en Dragunas náði að minnka muninn niður í fjögur mörk áður en Selfoss svaraði fyrir sig aftur.

„Þetta var klaufalegt hjá okkur. Við vorum búnir að tala um það að slaka ekkert á, en við gerum það samt þarna í tvær mínútur. Vonandi verður það ekki dýrkeypt. Við gætum alveg eins fengið eitthvað bíó í Litháen um næstu helgi þannig að það hefði kannski komið sér betur að vera þessum níu mörkum yfir. En þeir eru ósáttir, eins og þú heyrir,“ sagði Einar en viðtalið var tekið úti á miðju gólfi í Iðu þar sem Arturas Juskenas, þjálfari Dragunas, las duglega yfir sínum mönnum eftir leik.

Seinni leikurinn verður í Klaipedas í Litháen næsta laugardag og hann leggst vel í Einar sem sjálfur hefur nokkra reynslu úr Evrópukeppninni eftir dvöl sína í herbúðum ÍBV. Það er þó óvíst að Einar nái leiknum sjálfur því hann og unnusta hans, Lena Rut Guðmundsdóttir eiga von á sínu fyrsta barni á næstu dögum.

„Hvernig sem það fer þá verður þetta ævintýri. Ég held að strákarnir séu líka sjóaðir í þessu, margir landsliðsmenn og vanir að ferðast út um allt, þannig að ferðalagið ætti ekki að hafa nein áhrif á okkur. Það gerist mikið og margt skemmtilegt í þessum ferðum og það kemur ekki annað til greina hjá okkur en að búa til einhverjar minningar og halda áfram að byggja upp það sem við erum að gera. Mér hefur alltaf gengið vel í þessum Evrópuleikjum. Það er gaman að því en ég er bara ánægður á meðan liðinu gengur vel,“ sagði Einar að lokum og bætti við að hann væri sáttur með hið nýja heimili handboltans á Selfossi í Iðu.

„Það er greinilega fínt andrúmsloft hérna í Iðu. Ég hélt að maður þyrfti kannski einhvern tíma til þess að aðlagast þessu, en nei nei, þetta var bara gaman.“

Fyrri grein„Náðum að spila á okkar hraða“
Næsta greinTómas Sæmundsson, sjálfstæðisbaráttan og fullveldið 1918