Ekki nógu klókir til að klára leikinn

Selfoss glutraði niður tveggja marka forskoti þegar liðið mætti Þrótti á útivelli í Inkassodeild karla í knattspyrnu í dag.

„Við vorum ekki nógu góðir eða nógu klókir til að klára leikinn. Það er ekki flóknara en það,“ sagði Dean Martin, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Selfyssingar byrjuðu leikinn frábærlega og voru komnir í 0-2 eftir sautján mínútna leik. Pachu braut ísinn á 11. mínútu og Kenan Turudija bætti öðru markinu við á 17. mínútu. Annars voru Þróttarar meira í boltann og náðu að skapa fleiri færi en staðan var 0-2 í leikhléi.

Heimamenn voru sterkari í síðari hálfleik og minnkuðu muninn á 63. mínútu. Tíu mínútum síðar var Pachu nálægt því að bæta við öðru marki fyrir Selfoss en skallaði rétt yfir. Þróttarar gerðu í kjölfarið harða hríð að marki Selfyssinga og á 77. mínútu náðu þeir að jafna, 2-2.

Lokakaflinn var æsispennandi en Þróttarar voru sterkari og þeir náðu að knýja fram sigurmark á lokamínútu leiksins.

Selfoss er áfram í 11. sæti deildarinnar með 15 stig en Þróttur er í 3. sæti með 35 stig.

Fyrri greinFrábær frammistaða á móti mjög góðu liði
Næsta greinAlvarlegt umferðarslys austan við Kúðafljót