„Ótrúlega ánægður með frammistöðuna“

Selfoss tapaði 0-3 í hörkuleik þegar Stjarnan kom í heimsókn á Jáverkvöllinn í Pepsideild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Mér fannst lokatölurnar ekki gefa rétta mynd af leiknum. Ég er ótrúlega ánægður með frammistöðuna hjá mínu liði í kvöld. Við gerum fimm breytingar á byrjunarliðinu frá því í síðasta leik og erum að spila á reynsluminni leikmönnum en þær standa sig allar með prýði. Þetta sýnir bara hvað við erum að gera ótrúlega vel í kvennaboltanum hérna á Selfossi. Nú eru framundan mikilvægir leikir gegn FH og Grindavík og við höldum bara okkar striki. Það er bara áfram gakk,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum en annars var fyrri hálfleikurinn jafn og færin ekki mörg. Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn af krafti en Selfyssingar vörðust fimlega, eins og þeir hafa gert svo vel í sumar.

Vendipunkturinn í leiknum varð á 66. mínútu þegar Stjarnan komst yfir með marki úr vítaspyrnu. Í kjölfarið efldust gestirnir og þær bættu við tveimur mörkum á lokakaflanum.

Eftir leiki kvöldsins er Selfoss í 7. sæti deildarinnar með 12 stig, en Stjarnan er í 4. sæti með 22 stig.

Fyrri greinKiljan í kirkjunni í Strandarkirkju
Næsta greinHamar vann Suðurlandsslaginn