Gunnar hættur með Selfossliðið

Gunnar Borgþórsson hefur óskað eftir því við stjórn knattspyrnudeildar Selfoss að hann stígi til hliðar sem þjálfari meistaraflokks karla.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem stjórn deildarinnar sendi frá sér í kvöld.

Þar er sagt að Gunnar hafi tekið þessa ákvörðun af yfirvegun með hagsmuni klúbbsins að leiðarljósi.

Þegar er hafin leit að þjálfara fyrir meistaraflokk karla en næsti leikur Selfoss er miðvikudaginn 1. ágúst, þegar topplið HK kemur í heimsókn.

Gunnar tók við karlaliði Selfoss árið 2015 eftir að hafa áður stýrt kvennaliði félagsins. Gengi Selfossliðsins hefur ekki verið gott í Inkasso-deildinni í sumar og eftir 3-2 tap gegn ÍR í gærkvöldi er liðið komið í fallsæti, 11. sætið með 11 stig.

Í tilkynningunni frá knattspyrnudeildinni er Gunnari þakkað fyrir samstarfið og honum óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Fyrri greinViðbygging við grunnskólann sett í hönnunarferli
Næsta greinMannvit átti lægra tilboðið