Árborg missteig sig í Grindavík

Árborg tapaði dýrmætum stigum og sömuleiðis toppsætinu í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við GG á útivelli.

Árborg byrjaði leikinn af krafti og Daníel Ingi Birgisson kom þeim yfir strax á 2. mínútu. Á 27. mínútu bætti svo Magnús Helgi Sigurðsson við öðru marki fyrir Árborg.

Heimamenn voru ekki af baki dottnir heldur minnkuðu muninn á 43. mínútu og þeir skoruðu svo eina mark síðari hálfleiks þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Að loknum tíu umferðum eru Álftanes, Árborg og KFS í 1.-3. sæti öll með 23 stig en Álftanes hefur besta markahlutfallið. GG er í 4. sæti með 19 stig.

Fyrri greinLélegasti varpárangur spóans frá því mælingar hófust
Næsta greinÁtta sækja um í Mýrdalshreppi