Árborg endurheimti toppsætið

Knattspyrnufélag Árborgar er aftur komið í toppsæti C-riðils í 4. deild karla í knattspyrnu eftir nokkuð öruggan sigur á Kóngunum á Selfossvelli í kvöld, 3-1.

Árborgarar voru lengi að brjóta vörn Kónganna á bak aftur en Magnús Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta markið með skalla á 42. mínútu.

Staðan var 1-0 í hálfleik en þegar tuttugu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Eyþór Helgi Birgisson glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu.

Kóngarnir voru nokkuð sprækir í kvöld og þeir gáfust ekki upp við mótlætið. Á 73. mínútu fengu þeir vítaspyrnu sem þeir minnkuðu muninn úr, en Ingvi Rafn Óskarsson jók forskot Árborgar aftur á 83. mínútu með marki af vítapunktinum.

Árborg hefur 22 stig í toppsæti riðilsins en þar á eftir koma Álftanes og KFS með 20 stig.

Fyrri greinGísli Halldór ráðinn bæjarstjóri í Árborg
Næsta greinHamar hikstar áfram