Selfoss á leið í Evrópukeppnina

Karlalið Selfoss í handbolta mun taka þátt í EHF-bikarnum, Evrópukeppninni í handbolta í vetur. Dregið verður í fyrstu tvær umferðirnar næstkomandi þriðjudag.

Selfyssingar öðluðust rétt til þátttöku með því að verða í 2. sæti í deildarkeppni Íslandsmótsins síðasta vetur. Ásamt þeim taka FH og Íslandsmeistarar ÍBV þátt í keppninni.

FH er einmitt eitt þeirra liða sem verður í pottinum sem mögulegur andstæðingur Selfoss í 1. umferðinni. Alls eru 22 lið í pottinum og meðal annarra liða þar má nefna Dubrava frá Króatíu, Kadetten Schaffhausen frá Sviss og Steaua Bucuresti frá Rúmeníu. Einnig er í pottinum lið West Wien frá Austurríki en þjálfari þess er Hannes Jón Jónsson, fyrrum leikmaður Selfoss.

Komist Selfyssingar í gegnum 1. umferðina bíða lið eins og SKA Minsk frá Búlgaríu, Drammen frá Noregi, Álaborg frá Danmörku og ÍBV frá Íslandi í pottinum.

Fyrri greinSuðurlandsvegur lokaður við Núpsvötn
Næsta greinFimmtán sækja um í Árborg