Fyrsta tap Hamars

Hamar og KFR töpuðu leikjum sínum í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Þetta var fyrsti tapleikur Hamars í sumar.

Hamar heimsótti sterkt lið Snæfells/UDN heim í Stykkishólm og þar skoruðu heimamenn eina mark leiksins á 16. mínútu. Heimamenn léku manni færri stærstan hluta síðari hálfleiks þar sem einn leikmanna þeirra fékk rauða spjaldið á 52. mínútu en Hamri tókst ekki að nýta sér liðsmuninn.

Á gervigrasi Fjölnis í Grafarvogi mættust Björninn og KFR. Hjörvar Sigurðsson kom Rangæingum yfir á 24. mínútu og staðan var 0-1 í leikhléi en heimamenn skoruðu tvívegis með stuttu millibili í upphafi síðari hálfleiks og tryggðu sér 2-1 sigur.

Hamar er nú í 3. sæti A-riðils með 15 stig en KFR er áfram á botninum með 3 stig.

Fyrri greinSvekkjandi tap í Eyjum
Næsta greinStarfsmenn áttu fótum fjör að launa