Dusan hættur með Hamar

Dusan Ivkovic hefur sagt upp störfum hjá knattspyrnudeild Hamars í Hveragerði en hann þjálfaði meistaraflokk félagsins í 4. deild karla.

Dusan staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í kvöld og segir uppsögnina vera eingöngu af persónulegum ástæðum.

„Þetta var erfið ákvörðun sem ég tók í dag en ég er hættur í starfi mínu hjá Hamri. Ég vil þakka öllum hjá félaginu fyrir samvinnuna og vonandi heldur liðið áfram að spila vel og verður í toppbaráttunni,“ sagði Dusan, sem vonast til að finna sér annað starf við þjálfun.

Hamarsmenn hafa farið vel af stað á Íslandsmótinu í 4. deildinni en liðið er í toppsæti A-riðils og hefur ekki tapað leik í sumar.

Fyrri greinJafntefli í hörkuleik
Næsta greinHornsteinn lagður að Búrfellsstöð II og stöðin gangsett