„Ánægður með stigið“

Selfoss og Leiknir gerðu 1-1 jafntefli í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust í Breiðholtinu.

„Mér fannst þetta ekki góður leikur ef ég á að segja alveg eins og er. Mikið um feilsendingar og handahófskenndur fótbolti þannig að ég er mjög ánægður með stigið og baráttan var mjög góð hjá liðinu en ég var ekki nógu ánægður með spilamennskuna,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Það var rok og rigning í Breiðholtinu í kvöld sem hafði sín áhrif á leikinn. Gilles Ondo kom Selfyssingum yfir strax á 3. mínútu eftir slæm mistök í vörn Leiknis en heilt yfir var leikurinn jafn í fyrri hálfleik.

Leiknismenn höfðu hins vegar öll völd á vellinum í síðari hálfleik en Selfyssingar lágu til baka og vörðust vel. Selfossliðinu tókst þó ekki að halda hreinu því Leiknismenn jöfnuðu á 65. mínútu eftir snarpa sókn. Þar við sat þrátt fyrir mikið áhlaup heimamanna á lokakafla leiksins.

Selfoss hefur 8 stig í 9. sæti deildarinnar en Leiknir er í 10. sætinu með 7 stig.

Fyrri greinFornbíla-landsmótinu á Selfossi aflýst
Næsta greinSunnlendingar á toppnum