Máni Snær íþróttamaður Hrunamannahrepps

Máni Snær Benediktsson var útnefndur íþróttamaður Hrunamannahrepps árið 2017 en verðlaunaafhendingin fór fram á 17. júní.

Það var Karl Gunnlaugsson sem afhenti Mána Snæ eignarbikar og farandsbikar af þessu tilefni.

Máni Snær er mjög efnilegur og fjölhæfur íþróttamaður sem hefur verið í stöðugri framför. Hann náði mjög góðum árangri á frjálsíþróttavellinum árið 2017 og skara afrek hans í hástökki og langhlaupum þar framúr.

Máni Snær náði fjórum Íslandsmeistaratitlum í flokki 15 ára pilta. Hann varð Íslandsmeistari í hástökki innanhúss, 3.000 m hlaupi utanhúss og í boðhlaupi með sveitum HSK, bæði innan- og utanhúss. Hann var valinn í Úrvalshóp FRÍ fyrir árangur sinn í 3.000 m hlaupi.

Við þetta má bæta að Máni Snær stundar knattpyrnu af krafti með Umf. Selfoss og körfuknattleik með Umf. Hrunamanna.

Á verðlaunahófinu voru þeir íþróttamenn í Hrunamannahreppi sem unnið hafa Íslandsmeistaratitla og þeir sem valdir hafa verið í landslið fyrir hönd sinnar þjóðar á árinu 2017, heiðraðir og afhentir verðlaunaplattar því til staðfestingar.

Una Bóel Jónsdóttir, Íslandsmeistari í frjálsum íþróttum, Ingibjörg Bára Pálsdóttir, Íslandsmeistari í frjálsum íþróttum, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir sem var valin í Landslið Íslands í Körfuknattleik U-18, Ragnheiður Björk Einarsdóttir sem var valin í Landslið Íslands í Körfuknattleik U-18 og Perla María Karlsdóttir sem var valin í Landslið Íslands í Körfuknattleik U-15. Þá varð lið UMFH/Laugdæla í meistaraflokki karla, Íslandsmeistarar í körfuknattleik í 2. deild.

Fyrri greinRatsjárstöð á Þingvöllum
Næsta greinÁrborg steinlá á heimavelli