Fimm mínútna upplausn á Ásvöllum

Kenan Turudija skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu 5-3 þegar þeir heimsóttu Hauka á Ásvelli í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af en Haukar komust yfir á 20. mínútu en fram að því höfðu bæði lið átt álitleg færi. Á 37. mínútu komust Haukar í 2-0 og í kjölfarið varð algjör upplausn hjá Selfyssingum. Haukar bættu við tveimur mörkum til viðbótar á næstu fjórum mínútum og staðan var því 4-0 í hálfleik.

Selfyssingar náðu áttum strax aftur í seinni hálfleik og Kenan Turudija minnkaði muninn á 58. mínútu. Haukar komust svo í 5-1 á 70. mínútu en Turudija skoraði tvö mörk til viðbótar á síðasta korterinu og kórónaði þrennu sína. Hún dugði þó ekki til og lokatölur urðu 5-3.

Eftir leiki kvöldsins eru Selfyssingar með 7 stig í 8. sæti deildarinnar en Haukar fóru upp í 4. sætið og eru með 10 stig.

Fyrri greinMálun Ölfusárbrúar frestað
Næsta greinMargvíslegur fróðleikur um lífshætti Skaftfellinga