Vel heppnuð júdóferð til Svíþjóðar

Miðvikudaginn 9. maí síðastliðinn fóru tíu júdóiðkendur frá Umf. Selfoss í ferð ásamt fjórum foreldrum og Einari Ottó Antonssyni, júdóþjálfara.

Ferðinni var heitið til Lund í Svíþjóð þar sem árlega fer fram Budo Nord, alþjóðleg júdókeppni og þriggja daga æfingabúðir fyrir 10-20 ára ungmenni.

Strax fyrsta morguninn hófst keppni fyrir 13-20 ára og þar vorum við með fimm keppendur: Jóel Rúnar og Kristján Björn, báðir 13 ára og Óskar Atli 15 ára voru að glíma í fyrsta sinn á erlendu stórmóti og stóðu sig vel. Jakub 14 ára var þarna í þriðja sinn, átti flottar glímur og endaði í 3. sæti í sínum þyngdarflokki og Halldór Ingvar 16 ára var þarna einnig í þriðja sinn, sigraði þrjár af fimm glímum, stóð sig frábærlega en náði ekki á pall.

Að keppnisdegi loknum tóku við tveggja daga stífar æfingabúðir þar sem frábærir þjálfarar víðsvegar úr Evrópu þjálfuðu um 600 ungmenni, æfingum var skipt niður eftir aldri og reynslu svo allir fengu æfingar við hæfi.

Á laugardeginum var keppni fyrir 11-12 ára. Þar áttum við einnig fimm keppendur: Grétar Kári 11 ára og Filip Markús 12 ára áttu flottar glímur, börðust vel en náðu ekki á pall. Einar Örn, Alexander Adam og Vésteinn Haukur gerðu það hins vegar allir. Einar Örn barðist vel, vann þrjár af fjórum glímum og endaði í öðru sæti í sínum flokki. Alexander Adam vann tvær af þremur glímum og varð einnig í öðru sæti í sínum flokki. Vésteinn vann tvær af fjórum glímum og endaði í 3. sæti.

Glæsilegur árangur hjá okkar mönnum. Tíu keppendur komu heim með fern verðlaun af stórmóti þar sem fjöldi landa tók þátt, allir reynslunni ríkari og vel þreyttir eftir stífar æfingar, bæði iðkendur og þjálfari.

Þessi ferð var frábær í alla staði, strákarnir til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan. Ferðinni lauk svo með viðkomu í Tívolíinu í Kaupmannahöfn áður en flogið var heim seint á sunnudagskvöld.

Við viljum þakka þeim sem styrktu strákana og gerðu þessa ferð mögulega:
Set ehf Selfossi
HG bókhald Selfossi
HP kökugerð Selfossi
Lagnir og lóðir ehf Stokkseyri
Pylsuvagninn Selfossi

Takk allir einstaklingar og fyrirtæki sem styrktu strákana með einum eða öðrum hætti þið megið vera stoltir styrktaraðilar þessara flottu krakka.

Með kveðju,
Foreldrarnir fjórir

Fyrri grein30% fleiri umsóknir við HA en í fyrra
Næsta greinDrekamót í Skógum á sunnudag