Selfyssingar sungu ekki í Kórnum

Selfoss tapaði 3-1 þegar liðið heimsótti HK í Kórinn í Kópavogi í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var í járnum lengst af, fyrri hálfleikur markalaus en seinni hálfleikurinn var mun fjörugri. HK skoraði tvö mörk með stuttu millibili um miðjan seinni hálfleikinn en undir lok leiks fóru Selfyssingar að þjarma að þeim.

Kristófer Páll Viðarsson skoraði gott mark úr aukaspyrnu á 89. mínútu en strax í næstu sókn varð Jökull Hermannsson fyrir því óláni að tækla boltann í eigið mark. Þar við sat og lokatölur urðu 3-1. Enginn sigursöngur hjá Selfyssingum.

Selfoss er í 10. sæti deildarinnar með 1 stig og mætir botnliði Magna í næstu umferð á heimavelli laugardaginn 26. maí. HK situr í 3. sætinu með 7 stig.

Fyrri greinTap í fyrsta heimaleiknum
Næsta greinÖlfus sigraði í Útsvarinu