„Gríðarlega stolt af þessum samningi“

Laugardagurinn 12. maí var stór dagur í sögu Golfklúbbs Selfoss en félagið skrifaði þá undir langtímasamning við Sveitarfélagið Árborg um afnot af vallarsvæðinu við Svarfhól.

„Alveg frá því klúbburinn var stofnaður árið 1971 hefur verið mikill barningur að koma föstu landi undir starfsemi hans. Við höfum verið á töluverðu flakki en Svarfhólsvöllur er fjórða vallarstæði klúbbsins á 47 árum,“ sagði Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri GOS, í samtali við sunnlenska.is.

Nýi samningurinn felur í sér að golfklúbburinn verður með Svarfhólsvöll ásamt nýju svæði undir 18 holur og æfingasvæði til langframa. Skrifað var undir ótímabundinn samning með löngum uppsagnarfresti.

„Við erum gríðarlega ánægð og stolt af því að hafa náð þessum samningi sem festir klúbbinn í sessi á þessum fallega stað. Núna er hægt að hefja uppbyggingu og ekki þarf að óttast lengur um staðsetningu vallarins,“ segir Hlynur Geir og bætir við að það sé von stjórnar klúbbsins að uppbygging á nýjum holum hefjist strax á þessu ári.

Fyrri greinÁtta Selfyssingar í landsliðshópnum
Næsta grein„Fannst við heilt yfir betri“