Góður rómur gerður að hlaupaleiðinni

Jötunnhlaup Frískra Flóamanna í samstarfi við Jötunn Vélar fór fram þann 1. maí síðastliðinn. Alls tóku 54 hlauparar þátt í hlaupinu í ár og það er fjölgun frá hlaupinu í fyrra.

Jöfn þátttaka var í 5 km hlaupinu og í 10 km hlaupinu. Alls hlupu 32 karla og 22 konur.

Í 5 km hlaupinu var Þórólfur Ingi Þórsson úr ÍR hraðastur en hann fór vegalengdina á 16:29 mín, hraðasta konan var Helen Ólafsdóttir úr FH og hennar tími var 19:57 mín. Dagur Fannar Einarsson Umf. Selfoss var þriðji í mark á tímanum 19:03 mín.

Fyrstur Frískra Flóamanna í 5 km var Sigmundur Stefánsson og setti hann nýtt Íslandsmet í flokki karla 65 ára og eldri. Tíminn hans var 21:36 mín. Reynuka Chareyre var fljótust Frískra í kvennaflokki en hennar tími var 26:18 mín.

Í 10 km hlaupinu kom Ingvar Hjartarson úr Fjölni fyrstur í mark á tímanum 37:25 mín og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir úr hlaupahópnum Réttur sprettur hljóp vegalengdina á 45:59 mín. Sigursveinn Sigurðsson var fljótastur Frískra í karlaflokki í mark á tímanum 44:11 mín og Dagbjört Sævarsdóttir í kvennaflokki á tímanum 56:20 mín.

Hlaupið var ræst við húsakynni Jötunn Véla og þar var líka endamarkið. Í viðbót við hefðbundin verðlaun fyrir bestu tíma í karla- og kvennaflokki í 5 og 10 km vegalengd voru veitt útdráttarverðlaun sem Jötunn Vélar, Riverside Spa, Stúdíó Sport og Efnalaug Suðurlands gáfu. MS gaf hleðsludrykki og Lyfja orkudrykki. Öllum þessum aðilum eru færðar hinar bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Góður rómur var gerður í keppnislok að hlaupaleiðinni en bæði þykir brautin hröð og skemmtileg og því býður hún upp á kjöraðstæður til að bæta tíma.

Æfingatímar Frískra Flóamanna er á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:15 og á laugardögum kl. 10:00. Hlaupin hefjast og enda við Sundhöll Selfoss og er allir áhugasamir um hlaup hvattir til að mæta. Æfingar eru ókeypis.


Jötunnhlaupið ræst í muggunni á 1. maí. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinJórukórinn í Selfosskirkju og Skálholti
Næsta greinTraustir innviðir bjóða fram í Mýrdalshreppi