„Orkan og handboltinn – þetta var alvöru“

Selfyssingar eru skrefi nær úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta eftir frábæran sigur á FH í leik þrjú í kvöld, 31-29. Staðan er nú 2-1 og Selfoss þarf einn sigur til viðbótar.

„Húsið var orðið fullt klukku­tíma fyr­ir leik og ég verð að segja að ork­an og hand­bolt­inn sem við sýnd­um, sér­stak­lega fyrstu 25 mín­út­urn­ar, þetta var al­vöru. Mér fannst þetta sann­gjarn sig­ur. Nú er bara end­ur­nær­ing og ætli við kíkj­um ekki eitt­hvað í lyft­inga­sal­inn. Svo eru það bara æf­ing­ar á fimmtu­dag og föstu­dag og næsti leik­ur á laug­ar­dag,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir leik.

Selfyssingar voru hreint út sagt stórkostlegir í upphafi leiks og náðu sex marka forskoti, 12-6. Þá vöknuðu gestirnir upp við vondan draum, skoruðu þrjú mörk í röð og komu sér aftur inn í leikinn.

Staðan var 15-12 í leikhléi en FH hafði jafnað 20-20 áður en seinni hálfleikur var hálfnaður. Selfyssingar létu það ekki á sig fá, FH komst ekki yfir og heimamenn höfðu frumkvæðið allt til leiksloka.

Einar Sverrisson var frábær að vanda og skoraði 11 mörk þriðja leikinn í röð. Haukur Þrastarson skoraði 6 og fór mikinn í vörninni, Atli Ævar Ingólfsson 5, Hergeir Grímsson 4, Elvar Örn Jónsson 3 og Teitur Örn Einarsson 2.

Sölvi Ólafsson varði 16/1 skot í marki Selfoss og átti magnaðan leik. Helgi Hlynsson kom inná undir lokin og varði vítaskot á ögurstundu.

Fjórði leikur liðanna verður í Kaplakrika á laugardagskvöld.

Fyrri greinMaður í sjálfheldu við Skaftafellsjökul
Næsta greinHamar úr leik eftir markaveislu