Sigurmarkið úr vítaspyrnu í uppbótartíma

Hamar vann dramatískan útisigur á Árborg í 1. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Selfossi urðu 0-1.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Árborgarar voru meira með boltann. Þó var fátt um færi og markalaust í leikhléi.

Árborgarar byrjuðu betur í seinni hálfleik en ekki dró til tíðinda fyrr en á 58. mínútu að Ingþór Birkir Árnason fékk að líta rauða spjaldið þar sem hann braut af sér í öftustu varnarlínu Árborgar.

Manni færri sóttu Árborgarar í sig veðrið og áttu ágætar sóknir en Stefán Þór Hannesson, markvörður Hamars, var besti maður vallarins í kvöld og átti nokkrar frábærar vörslur.

Síðustu tíu mínútur leiksins virtist nokkuð dregið af Árborgurum og Hamarsmenn færðu sig framar á völlinn. Það var þó fátt í spilunum sem benti til þess að þeir myndu skora. Eins og í öllum góðum nágrannaslögum var boðið upp á dramatík í lokin en á annarri mínútu uppbótartíma fiskuðu gestirnir vítaspyrnu.

Sam Malson fór á punktinn og skoraði af öryggi úr spyrnunni. Stuttu síðar flautaði dómari leiksins leikinn af og Hvergerðingar fögnuðu hraustlega.

Hamar mætir Létti í 2. umferð bikarsins.

Fyrri greinHamar áfram í 1. deildinni
Næsta greinNeðri stígur við Gullfoss opnaður á ný