Selfyssingar einn þriðji hluti landsliðshópsins


Landsliðsmennirnir frá Selfossi á æfingamótinu í Noregi. sunnlenska.is/Örn Þrastarson

Sex Selfyssingar léku með A-landsliði karla um helgina í Gulldeildinni, æfingamóti sem haldið var í Noregi. Liðið spilaði gegn Norðmönnum, Dönum og Frökkum en tapaði öllum sínum leikjum naumlega.

Í átján manna leikmannahópi Íslands voru sex leikmenn sem farið hafa í gegnum yngri flokka á Selfossi. Sannarlega athyglisverður árangur hjá vínrauða stórveldinu.

Haukur Þrastarson sló í gegn í sínum fyrsta A-landsleik. Hann kom inná í seinni hálfleik á móti Noregi þar sem Ísland tapaði 31-29. Haukur skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu en Haukur er yngsti leikmaðurinn til að skora mark fyrir íslenska landsliðið í handbolta, 16 ára gamall. „Inn­koma Hauks Þrast­ar­son­ar var mögnuð og verður eft­ir­minni­leg,“ sagði Guðmund­ur Þórður Guðmunds­son landsliðþjálf­ari í sam­tali við Morg­un­blaðið eft­ir leik­inn við Norðmenn. Haukur skoraði svo tvö mörk í 31-28 tapi gegn Dönum en hvíldi í síðasta leik mótsins gegn Frökkum vegna smávægilegra meiðsla.

Elvar Örn Jónsson gerði sömuleiðis góða hluti á mótinu. Hann skoraði tvö mörk í leiknum gegn Norðmönnum en komst ekki á blað gegn Dönum. Elvar var síðan í byrjunarliðinu í síðasta leik mótsins gegn Frökkum og átti stórleik í 28-26 tapi. Elvar Örn var markahæstur með sjö mörk og var valinn maður leiksins hjá íslenska liðinu.

Teitur Örn Einarsson kom ekki við sögu í fyrstu tveimur leikjum mótsins en lék síðan um það bil fimm mínútur í lokaleiknum gegn Frökkum, án þess að komast á blað.

Ómar Ingi Magnússon stóð sig vel á mótinu, hann var í byrjunarliðinu í öllum leikjunum og skoraði fjögur mörk í þeim öllum. Ómar Ingi var sérstaklega öflugur í leiknum gegn Frökkunum þar sem hann átti mjög fínan leik.

Ragnar Jóhannsson var í byrjunarliðinu í fyrsta leiknum, gegn Norðmönnum. Hann lét vel til sín taka í vörninni og skoraði tvö mörk gegn Noregi og eitt mark gegn Danmörku. Ragnar lét hafa eftir sér eftir mót að hann væri ekki ánægður með eigin frammistöðu á mótinu, en vonaðist til að fá tækifæri aftur til að sýna sitt rétta andlit.

Bjarki Már Elísson var í byrjunarliðinu í leikjunum gegn Noregi og Frakklandi en hann skoraði þrjú mörk í lokaleiknum gegn Frökkum og sýndi góða takta.

Sjöundi Selfyssingurinn í landsliðshópnum er síðan sjúkraþjálfarinn Jón Birgir Guðmundsson og samkvæmt heimildum sunnlenska.is stóð hann sig ekki síður vel á mótinu heldur en leikmennirnir frá Selfossi.

Á sama tíma spilaði B-landslið Íslands á æfingamóti í Houten í Hollandi þar sem liðið vann til silfurverðlauna á fjögurra liða móti. Einar Sverrisson var í landsliðshópnum, sem sigraði tvo leiki og tapaði tveimur, þ.m.t. úrslitaleik gegn Hollendingum, 24-26. Einar skoraði sjö mörk á mótinu og stóð sig með prýði. Einar Guðmundsson stýrir liðinu.

Fyrri greinSnjalltæki og unga fólkið okkar
Næsta greinMikil nýliðun á lista Framsóknar og óháðra í Árborg