Hvergerðingar með bakið upp við vegg

Hamar er í slæmri stöðu í einvígi sínu gegn Breiðablik í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta. Hamar tapaði naumlega í leik tvö á útivelli í kvöld og er 0-2 undir í einvíginu.

Þrjá sigra þarf til að sigra í einvíginu og geta Blikar tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni nái þeir sigri í þriðja leiknum í Hveragerði næstkomandi miðvikudag.

Útlitið var lengi vel nokkuð gott fyrir Hvergerðinga í kvöld. Þeir skoruðu sjö fyrstu stigin í leiknum og leiddu lengst af 1. leikhluta. Í upphafi 2. leikhluta komst Breiðablik yfir eftir 14-3 áhlaup, 35-28, en Hamar svaraði með frábærum kafla og leiddi 41-48 í leikhléi.

Munurinn varð aldrei mikill í seinni hálfleiknum en Hamar hélt forystunni allt þar til rúmar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum. Blikar komust þá í 82-80, og voru á undan að skora á lokamínútunum. Hamar átti lokasókn leiksins þar sem tvö skot Hvergerðinga geiguðu og Blikar sigruðu með þriggja stiga mun, 87-84.

Julian Nelson var bestur í liði Hamars í kvöld, og stigahæstur með 20 stig. Larry Thomas átti sömuleiðis ágætan leik.

Tölfræði Hamars: Julian Nelson 20/9 fráköst, Larry Thomas 14/6 stoðsendingar, Þorgeir Freyr Gíslason 13, Dovydas Strasunskas 11/7 fráköst, Arnór Ingi Ingvason 9, Mikael Rúnar Kristjánsson 9, Ísak Sigurðarson 3, Oddur Ólafsson 3, Jón Arnór Sverrisson 2/4 fráköst.

Fyrri greinStórsigur hjá KFR í lokaumferðinni
Næsta greinGrýlupottahlaup 1/2018 – Úrslit