Tap eftir framlengingu í Frystikistunni

Breiðablik stendur vel að vígi eftir sigur í fyrsta leiknum gegn Hamri í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit í Hveragerði.

Blikar voru mun sprækari í 1. leikhluta og náðu mest sautján stiga forskot í fyrri hálfleik. Þá hrökk loksins Hamarsliðið í gang aftur og þeir svöruðu með frábærum kafla og komust yfir. Staðan var 48-46 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var æsispennandi. Hamar náði tíu stiga forskoti í upphafi 3. leikhluta en Blikar voru fljótir að svara fyrir sig og voru komnir yfir, 67-68, þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Gestirnir létu kné fylgja kviði og komust tíu stigum yfir þegar mínúta var liðin af 4. leikhluta, 70-80. Hamar saxaði forskotið hins vegar jafnt og þétt niður og jafnaði 88-88 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum. Blikar voru skrefinu á undan á lokamínútunum en Hamar átti síðasta skot leiksins í venjulegum leiktíma. Tveggja stiga stökkskot Larry Thomas geigaði í stöðunni 95-95. Framlenging.

Í framlengingunni náði Breiðablik mest sex stiga forskoti, 99-105, þegar 1:42 mínútur voru eftir á klukkunni. Aftur tókst Hamri hins vegar að komast inn í leikinn en í lokasókninni leituðu þeir aftur að Larry Thomas og völdu að taka þriggja stiga skot fyrir sigrinum í stað tveggja stiga tilraunar til að jafna í stöðunni 104-106. Skot Thomas geigaði þegar 4 sekúndur voru eftir af leiknum. Hamar braut á Blikum í kjölfarið og þeir kláruðu leikinn örugglega á vítalínunni þegar 1 sekúnda var eftir.

Larry Thomas var bestur í liði Hamars í kvöld en Julian Nelson og Jón Arnór Sverrisson áttu einnig góðan leik.

Næsti leikur liðanna verður í Smáranum í Kópavogi á sunnudagskvöld en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki spilar í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Tölfræði Hamars: Larry Thomas 27/7 fráköst, Julian Nelson 21/6 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 19, Ísak Sigurðarson 11, Dovydas Strasunskas 8/7 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 8/9 fráköst, Smári Hrafnsson 7, Mikael Rúnar Kristjánsson 3.

Fyrri greinVill að fjármagn til tvöföldunar og brúargerðar verði tryggt nú þegar
Næsta greinNý aflmikil borhola í Hverahlíð