Elvar og Teitur inn í A-landsliðið

Selfyssingarnir Elvar Örn Jónsson og Teitur Örn Einarsson hafa verið kallaðir inn í A-landslið karla í handbolta sem tekur þátt í Gulldeildinni í Noregi í þessari viku.

Þeir félagar voru valdir í B-landsliðið á dögunum en frá því að Guðmundur Þ. Guðmundsson valdi A-landsliðshópinn þann 20. mars er komin upp sú staða nokkrir leikmenn geta ekki gefið kost á sér í verkefnið, ýmist vegna meiðsla eða af persónulegum ástæðum. Því hefur þurft að breyta bæði A og B landsliðshópunum um páskana.

Í A-landsliðinu hitta þeir Elvar Örn og Teitur fyrir liðsfélaga sinn og frænda, Hauk Þrastarson.

A-landsliðshópurinn telur átján leikmenn og eru sex þeirra, eða 1/3 hluti liðsins, uppaldir á Selfossi. Auk Hauks, Elvars og Teits eru í liðinu þeir Bjarki Már Elísson leikmaður Füchse Berlin, Ómar Ingi Magnússon leikmaður Aarhus og Ragnar Jóhannsson leikmaður Hüttenberg.

B-landsliðið hélt til Hollands á æfingamót í gær þar sem liðið mætir Hollandi, Japan og Hollandi B. Vegna breytinganna á A-landsliðinu var Einar Sverrisson, leikmaður Selfoss, kallaður inn í B-landsliðið. Þjálfari B-landsliðsins er Einar Guðmundsson.

Fyrri greinFerðaþjónustan kallar á fjölda nýrra starfsmanna
Næsta greinÞjótandi bauð lægst í Þingvallaveg