Unnu silfurverðlaun á sterku móti í Aþenu

Þrír Selfyssingar voru í leikmannahópi U16 ára landsliðs drengja í handbolta sem vann silfurverðlaun á Vrilittos Cup í Aþenu í Grikklandi um páskana.

Þetta eru þeir Tryggvi Þórisson, Ísak Gústafsson og Reynir Freyr Sveinsson. Allir voru þeir í lykilhlutverkjum í liðinu og stóðu sig gríðarlega vel á mótinu.

Ísland lék gegn Króatíu í úrslitaleiknum og tapaði naumlega eftir frábæran leik, 20-21, með flautumarki Króata.

Um er að ræða sterkt mót sem var dýrmæt reynsla fyrir þessa drengi en þetta voru þeirra fyrstu landsleikir. Ísland lék gegn Ísrael í undanúrslitaleiknum en aðrir mótherjar þeirra á mótinu voru Rúmenía og Bosnía/Herzegóvína.

Fleiri Sunnlendingar voru í íslenska hópnum því selfyssingurinn Örn Þrastarson er aðstoðarþjálfari U16 ára liðsins og Ketill Heiðar Hauksson frá Seljatungu er sjúkraþjálfari liðsins.

Fyrri greinAfhentu Tækniskólanum veglega gjöf
Næsta greinEmma Higgins í Selfoss