Sunnlensku liðin sigruðu

Árborg og KFR unnu örugga sigra í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Árborg mætti Álafossi heima og KFR Ísbirninum á útivelli.

Arilíus Óskarsson og Eyþór Helgi Birgisson komu Árborg í 2-0 snemma leiks og þannig var staðan í leikhléi. Þeir endurtóku leikinn svo í upphafi seinni hálfleiks og komu Árborg í 4-0. Þannig var staðan allt þar til á lokamínútunum að Árborg skoraði þrjú mörk með stuttu millibili. Pelle Damby Caroe skoraði tvívegis og Aron Freyr Margeirsson eitt. Lokatölur 7-0 og Árborg í 2. sæti riðils-3.

KFR sótti Ísbjörninn heim í Kópavoginn og þar var staðan orðin 0-3 eftir sautján mínútna leik. Guðmundur Gunnar Guðmundsson skoraði fyrstu tvö mörkin og Ævar Már Viktorsson það þriðja. Ísbjörninn minnkaði muninn í upphafi seinni hálfleiks en Guðmundur Gunnar kórónaði þrennuna á 70. mínútu og lokatölur urðu 1-4. KFR er í 2. sæti riðils-4 með fullt hús stiga, 6 stig.

Fyrri greinKæru Selfyssinga vísað frá dómi
Næsta greinSelfyssingar áfrýja ekki úrskurðinum