Guðmundur Kr. kosinn heiðursformaður HSK

Leturstærð: Decrease font Enlarge font
image Guðmundur Kr. Jónsson, heiðursformaður HSK. Ljósmynd/HSK

Guðmundur Kr. Jónsson á Selfossi var kosinn heiðursformaður Héraðssambandsins Skarphéðins á héraðsþingi HSK í Þorlákshöfn síðastliðinn laugardag.

Guðmundur varð snemma mjög öflugur félagsmálamaður og tók virkan þátt í starfi Umf. Selfoss og var formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss árin 1968- 1979 og síðar gengdi hann stöðu vallarstjóra og framkvæmdastjóra félagsins. Hann hefur verið formaður Umf. Selfoss frá 2014. Hann var kosinn formaður HSK árið 1981 og hélt um stjórnartaumana í átta ár með miklum myndarskap. Hann tók þá sæti í aðalstjórn ÍSÍ og sat í aðalstjórn í tvö ár.

Guðmundur Kr. tekur enn virkan þátt í störfum sambandsins. Hann er til dæmis mjög eftirsóttur sem þulur á frjálsíþróttamót HSK enda röggsamur og vel til forystu fallinn.

Í bókinni HSK í 100 ár segir um störf Guðmundar: „Það er á engan hallað þótt hann sé talinn einn af dugmestu og starfsömustu foringjum Héraðssambandsins Skarphéðins.“

Guðmundur er sá þriðji í röðinni sem kosinn er heiðursformaður HSK.  Sigurður Greipsson var kosinn á þingi sambandsins árið 1966 og Jóhannes Sigmundsson var kosinn á héraðsþingi árið 2011.

  • email Senda frétt
  • print Prentvæn útgáfa
  • Plain text Einfaldur texti