„Maður er svekktur – annað væri óeðlilegt“

Patrekur og Grímur fylgjast með Selfossliðinu af bekknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Mig langar bara til þess að byrja á því að þakka fólkinu sem kom og studdi okkur. Við áttum tvo þriðju af höllinni og það sýnir styrk. Ég er mjög stoltur af því,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss eftir tapið gegn Fram í undanúrslitum bikarkeppni karla í handbolta í kvöld.

Stemmningin í Laugardalshöllinni var rafmögnuð en Selfossliðið var dyggilega stutt af miklum fjölda vínrauðra áhorfenda. Framlengja þurfti leikinn en það dugði ekki til svo að úrslitin réðust í vítakeppni, 32-31.

Furðuleg dómgæsla
„Það vantaði ekki mikið uppá. Strákarnir lögðu sig fram, við vorum með stjórn á leiknum. Það var mikil harka í þessu og furðuleg dómgæsla. Það eru mjög stórir dómar sem falla þarna í lokin en ég ætla ekkert að fara að væla yfir því. Það sáu það allir og það verður fróðlegt að skoða það betur. En þetta er okkar lang besta par skilst mér,“ sagði Patrekur ennfremur og bætti við að leikurinn hafi verið kaflaskiptur hjá sínum mönnum.

„Við vildum að skytturnar okkar kæmust á ferðina og við náðum því á köflum. Við skorum fimmtán mörk í fyrri hálfleik og hefðum getað verið í tuttugu því við förum með mikið af dauðafærum. Framararnir voru seigir og fengu oft að skora mörk á þremur, fjórum skrefum. Þeir höfðu heppnina með sér og ég óska þeim góðs gengis í úrslitum,“ sagði Patrekur.

Haukur og Hergeir spiluðu báðir
Haukur Þrastarson og Hergeir Grímsson birtust báðir eins og skrattinn úr sauðaleggnum í leikmannahópi Selfoss í kvöld, en þeir hafa verið frá vegna meiðsla og var ekki reiknað með þeim í leikinn.

„Haukur fór í aðra skoðun á miðvikudagsmorgun. Ég hlusta bara á lækna og Jónda. Jóndi er sá besti í þessu fagi. Ég veit ekki hvaða sérfræðingur er með fingurinn á Hauki en hann fékk bara grænt ljós. Hann æfði í gær. Þetta var ekkert planað. Ég gerði mér vonir um að Hergeir gæti spilað og hann stóð sig mjög vel, sérstaklega varnarlega þegar við snerum leiknum í lokin, það var ánægjulegt að sjá það.“

Svekkelsið var mikið í leikslok enda hefði leikurinn getað farið á hvorn veginn sem var og Selfyssingar fengu tækifæri til þess að klára hann. Patrekur var sammála því.

„Það er svo stutt eftir í þessu móti þannig að maður er mjög svekktur, og ég verð örugglega enn svekktari ef ég hef rétt fyrir mér varðandi þessa dóma. Þá verður maður bara að taka því eins og maður. Hefðum við skorað úr síðustu sókninni þá værum við komnir í úrslitaleikinn. Svo fór eitt víti í stöng. Markmiðið okkar var að komast í Final4 og að vinna bikarinn. Maður er svekktur, ég viðurkenni það, annað væri óeðlilegt,“ sagði Selfossþjálfarinn að lokum.

TENGDAR FRÉTTIR:
Grátlegt tap í bikarnum

Fyrri greinGrátlegt tap í bikarnum
Næsta greinSelfoss steinlá í Lengjunni