Langþráður sigur á meistaramóti 15-22 ára í frjálsum

Lið HSK/Selfoss sigraði heildarstigakeppni félaga á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 15-22 ára sem fram fór í Kaplakrika í Hafnarfirði á dögunum. Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem HSK/Selfoss sigrar í stigakeppninni.

HSK/Selfoss sendi öflugt lið á mótið sem samanstóð af 41 efnilegum unglingum víðsvegar af Suðurlandi. Keppendur HSK/Selfoss stóðu sig frábærlega og uppskáru eftir því. Liðið sigraði í heildarstigakeppni félaga með 328 stig en ÍR varð í 2. sæti með 302 stig.

Í einstökum flokkum þá sigraði HSK/Selfoss 15 ára flokka bæði stúlkna og pilta með yfirburðum, sem og 18-19 ára flokk pilta, varð í öðru sæti 16-17 ára flokki pilta og í þriðja sæti í flokkum 16-17 ára flokki stúlkna. Hópurinn rakaði til sín verðlaunum eða 43 í heildina sem skiptist í 15 gull, 20 silfur og 9 brons. Ellefu HSK met voru sett á mótinu og síðast en ekki síst þá litu dagsins ljós 84 bætingar hjá sunnlensku keppendunum.

Fimmtán Íslandmeistaratitlar
HSK/Selfoss átti sextán einstaklinga sem voru fremstir meðal jafningja í fimmtán greinum. Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Heklu, var atkvæðamikill á mótinu, hann sigraði í fimm einstaklingsgreinum í flokki 15 ára pilta; í 60 m hlaupi á 7,65 sek, 200 m hlaupi á 24,37 sek en þetta er bæting í báðum þessum greinum, 300 m hlaupi á 38,48 sek, 60 m grindahlaupi á 9,77 sek og þrístökki með 11,28 m auk 4×200 m boðhlaups ásamt félögum sínum þeim, Unnsteini Reynissyni og Elíasi Erni Jónssyni báðum úr Þjótanda og Hjalta Snæ Helgasyni, Selfoss.

Í sama flokki varpaði Ólafur Magni Jónsson Umf. Bisk. kúlu allra pilta lengst 12,11 m. Í 15 ára flokki stúlkna kom Birta Sigurborg Úlfarsdóttir Dímon fyrst í mark á 45,44 sek. sem og í 60 m. grindahlaupi á 9,68 sek. Birta var svo í sigursveit HSK Selfoss í 4×200 m. boðhlaupinu ásamt þeim Þórdísi Ósk Ólafsdóttur Dímon, Evu Maríu Baldursdóttur Selfoss og Jónu Kolbrúnu Helgadóttur UMF Bisk. Þá stökk Eva María allra stúlkna hæst í hástökki í þessum flokki eða 1,68 m sem er bæting á hennar eigin HSK meti um þrjá cm og lengst allra í þrístökki með 10,85 m.

Í 16 – 17 ár flokki stúlkna varð Hildur Helga Einarsdóttir, Selfoss, Íslandsmeistari í kúluvarpi á bætingu, 13,34 m. Þá varð piltasveitin í þessum sama flokki meistari í 4×200 m boðhlaupi á 1:38,73 mín og setti HSK met í fjórum flokkum. Auk 16-17 ára flokksins, í 18-19 ára, 20-22 ára og fullorðinsflokki, en sveitina skipuðu þeir Hákon Birkir Grétarsson, Jónas Grétarsson og Dagur Fannar Einarsson alllir í Selfoss og Máni Snær Benediktsson Umf. Hrun. Að lokum sigraði Bjarki Óskarsson Þór Þorlákshöfn í stangarstökki 18-19 ára pilta með 3,00 m sem er bæting.

Það voru svo tólf keppendur HSK Selfoss sem unnu til 20 silfurverðlauna í hinum ýmsu greinum og 12 keppendur HSK Selfoss sem hirtu 9 bronsverðlaun sem er frábær árangur.

Ellefu HSK met
Keppendur HSK/Selfoss settu ellefu héraðsmet. Eins og áður segir setti Eva María Baldursdóttir Selfoss HSK met í hástökki í 15 ára flokki stúlkna og piltasveit 16-17 ára setti HSK met í fjórum flokkum í 4×200 m boðhlaupinu. Dagur Fannar Einarsson Selfoss setti svo glæsilegt HSK met í 400 m hlaupi í 16-17 ára flokki pilta á tímanum 52,18 sek og nálgast nú þá bestu í fullorðinsflokki en gamla metið var 53,09 sek.

Í sama flokki bæti Bríet Bragadóttir Selfoss sitt eigið HSK met í 60 m hlaupi um eitt brot er hún kom í mark á 8,11 sek. en þetta er líka met í 18- 19 ára flokki. Bríet bætti einnig sitt eigið met 60 m grindahlaupi í sama flokki. Hljóp á 8,21 sek. en gamla metið hennar var 9,25 sek. Að lokum var það svo Telma Björk Einarsdóttir Selfoss sem bætti sitt eigið met í kúluvarpi stúlkna 20 – 22 ára um fjórtán cm, varpaði 13,18 m.

HSK/Selfoss er nú Íslandsmeistari í 11 – 14 ára flokki og unglingaflokki 15 – 22 ára og því ljóst að framtíðin er björt á HSK svæðinu.

Fyrri greinÓlafur hættir sem formaður GLÍ
Næsta greinLeita manns í íshellinum í Blágnípujökli