Naumt tap gegn toppliðinu

Gnúpverjar voru grátlega nálægt því að leggja topplið Skallagríms í 1. deild karla í körfubolta í dag. Lokatölur í Fagralundi, heimavelli Gnúpverja, urðu 95-96.

Fyrstu tíu mínútur leiksins voru jafnar og skemmtilegar og mikið skorað. Gnúpverjar héldu áfram góðri baráttu í 2. leikhluta og náðu smá forskoti, 52-46 í leikhléi.

Skallagrímur mætti af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn og skoraði 30 stig gegn 15 stigum Gnúpverja í 3. leikhluta. Staðan var 67-76 þegar síðasti fjórðungurinn hófst en í honum átu Gnúpverjar upp forskot Skallagríms.

Lokakaflinn var æsispennandi. Gnúpverjar komust yfir, 91-90, þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum en í kjölfarið fylgdu fimm stig í röð frá Skallagrími. Gnúpverjar minnkuðu muninn í 93-95 þegar fimmtán sekúndur voru eftir og sendu Skallagrím svo rakleiðis á vítalínuna þar sem gestirnir bættu einu stigi á töfluna.

Everage Richardson setti niður tvö vítaskot í næstu sókn Gnúpverja, þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum. Gnúpverjar unnu boltann í kjölfarið en lokaskot Richardson – fyrir sigrinum – geigaði.

Richardson var frábær í leiknum, skoraði 44 stig og tók 11 fráköst. Gabríel Möller átti sömuleiðis góðan leik og skoraði 24 stig.

Skallagrímur fór langleiðina með að tryggja sér sæti í efstu deild með sigrinum í dag. Liðið er í toppsætinu með 36 stig og þar fyrir neðan er Hamar með 30 stig og þrjár umferðir eftir. Gnúpverjar eru áfram í 7. sæti deildarinnar með 14 stig.

Tölfræði Gnúpverja: Everage Lee Richardson 44/11 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Gabríel Sindri Möller 24, Leifur Steinn Arnason 8/6 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 7/10 fráköst, Atli Örn Gunnarsson 5/5 fráköst, Hákon Már Bjarnason 5, Tómas Steindórsson 2/8 fráköst.

Fyrri grein„Hvað með það“ tilnefnt sem lag ársins
Næsta greinMargrét útnefnd Íþróttamaður Hamars 2017