Æ fleiri bæjarbúar að uppgötva golfvöllinn

Aðalfundur Golfklúbbs Þorlákshafnar var haldinn fyrir skömmu og þótti takast mjög vel. Vel var mætt á fundinn og einhugur í aðalfundargestum.

Klúbburinn fagnaði 20 ára afmæli sínu á síðasta ári og var fyrsti formaður klúbbsins, Georg Már Michelsen gerður að heiðursfélaga á aðalfundinum.

Flestar lykiltölur í rekstri klúbbsins voru jákvæðar á síðasta ári. Hagnaður var af starfseminni upp á rúmlega 200 þúsund krónur, en miklar framkvæmdir voru á vellinum á síðasta ári og árin á undan. Félagar í klúbbnum hafa unnið mjög ötult starf við þessar framkvæmdir auk þess sem bæjarfélagið hefur stutt klúbbinn með myndarlegum hætti.

Heimsóknum á golfvöllinn fækkaði örlítið á síðasta ári og má að mestu skýra það með slöku tíðarfari síðasta vor. Góðu fréttirnar eru hins vegar að félögum í klúbbnum fjölgaði talsvert og má rekja fjölgunina að mestu leyti til þess að æ fleiri Þorlákshafnarbúar eru að uppgötva þessa perlu í bæjarlandinu sem golfvöllurinn er. Þá kom nokkur hluti nýrra félaga af höfuðborgarsvæðinu og ljóst að margir eru tilbúnir að aka þessa stuttu vegalengd til að spila á vellinum.

Golfklúbburinn sinnir barna- og unglingastarfi vel og síðasta sumar stjórnaði Ingvar Jónsson því starfi. Þess má geta að ungmenni undir tvítugu greiða engin félagsgjöld í klúbbinn. Þá var einnig blómlegt kvennastarf í klúbbnum á síðasta ári, en það var Ásta Júlía Jónsdóttir sem sá um það starf.

Aðalfundurinn samþykkti tillögu stjórnar um ýmis gjöld. Þannig kostar árgjald í klúbbnum aðeins 48 þúsund krónur sem er það sama og á síðasta ári. Fullyrða má að það er með því allra lægsta sem þekkist á Íslandi. Tekið er vel á móti nýliðum í klúbbnum og sýnir það best að ársgjald nýliða fyrstu tvö árin er samtals 48 þúsund krónur.

Kosið var í stjórn klúbbsins og allir sem skipuðu stjórnina áður voru endurkjörnir. Guðmundur Karl Baldursson var endurkjörinn formaður klúbbsins og aðrir í stjórn eru Ingvar Jónsson, Magnús J. Guðmundsson, Magnús Ingvason og Óskar Logi Sigurðsson. Ásta Júlía Jónsdóttir og Óskar Gíslason voru svo endurkjörin í varastjórn.

Fyrri greinOndo skoraði gegn gömlu félögunum
Næsta greinLægð