„Þeir mega gleðjast í kvöld“

Selfoss vann ótrúlegan sigur á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld. Haukar voru þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir en Selfoss sneri leiknum í 26-25 sigur á lokasekúndunum.

„Þetta var góður handboltaleikur. Fullt hús og ógeðslega gaman. Við gleðjumst yfir þessum sigri. Það eru frábærir gæjar í þessu Haukaliði með mikla reynslu og það er gott fyrir okkar menn að spila á móti þeim og hvað þá að vinna. Það er ekki spurning að þetta voru mikilvæg tvö stig,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við eigum Gróttu næst í deildinni og svo ÍBV áður en við förum inn í bikarhelgina. Það er bara gaman að við séum að berjast á öllum vígstöðvum og ég er fyrst og fremst ánægður fyrir hönd strákanna að geta spilað svona góðan handbolta. Þetta eru allt ungir heimamenn, auk Atla Ævars. Auðvitað mun ég finna eitthvað sem við getum lagað, en þeir mega gleðjast í kvöld,“ sagði Patrekur ennfremur.

Selfossþjálfarinn hefur verið óspar á lofið í garð samstarfsmanna sinna hjá félaginu, enda er umgjörðin á Selfossi frábær.

„Við erum að halda þjálfarafund í níunda eða tíunda skipti fyrir heimaleik og það mæta fimmtíu manns. Þetta er svo gaman og við hérna á Selfossi getum verið svo stolt af því hvernig við erum að vinna þetta. Auðvitað má maður aldrei gleyma sér og við verðum að halda áfram. Örn Þrastarson er uppi í stúku að taka niður tölfræðina fyrir okkur þjálfarana. Ég verð aldrei þreyttur á að minnast á þetta góða fólk í kringum mig sem er að vinna þetta með okkur. Ég hefði sagt þetta eftir leik líka þó að við hefðum tapað með fimm mörkum. Það er styrkleikamerki hjá klúbbnum hvernig við erum að vinna þetta og frábært að geta gefið fólkinu tvö stig,“ sagði Patrekur að lokum.

Ótrúleg sena í lokin
Selfoss náði góðri forystu í fyrri hálfleik og komst í 11-7. Haukar svöruðu fyrir sig rétt fyrir leikhlé og leiddu í hálfleik, 13-14.

Seinni hálfleikur var í járnum framan af en Haukar skriðu framúr um miðbik seinni hálfleiksins og höfðu þriggja marka forystu þegar þrjár mínútur voru eftir, 22-25. Selfoss skipti þá yfir í maður á mann vörn og Haukur Þrastarson stal þremur boltum í röð og jafnaði 25-25. Sölvi Ólafsson varði síðasta skot Hauka þegar 35 sekúndur voru eftir og Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmarkið þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum. Að sjálfsögðu trylltist húsið í heild sinni þegar sigrinum var fagnað.

Haukur og Elvar menn leiksins
Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk en hann skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum Selfyssinga. Elvar Örn Jónsson skoraði 5 mörk og var öflugur í vörninni. Richard Sæþór Sigurðsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu báðir 4 mörk, Atli Ævar Ingólfsson og Teitur Örn Einarsson 3 og Guðjón Baldur Ómarsson 1.

Helgi Hlynsson varði 9 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 3. Sölvi varði ekkert á upphafskafla leiksins en hann valdi rétta boltann til að verja í lokin þegar hann stöðvaði síðustu sókn Hauka.

Selfoss hefur nú 26 stig í 3. sæti deildarinnar en Haukar eru í 4. sætinu með 23 stig.

Fyrri greinGlæsilegur árangur hjá Ólafíu Ósk
Næsta greinTap í fyrsta leik í Lengjunni